Ljónið Davíð

Ljónið er konungur villidýranna. Davíð er ekki villidýr í eiginlegri merkingu og Davíð er ekki konungur. En Davíð er ljón á veginum að nýju þjóðfélagi á Íslandi.Þjóðin þarf sem fyrst að geta einbeitt sér að uppbyggingarstarfi og liður í því er að skipta um einstaklinga sem gegndu lykilhlutverkum í atburðarrásinni í hruninu mikla. Það var bæði sterk og eðlileg krafa þjóðarinnar að einhverjir myndu axla ábyrgð og það voru mikil mistök hvað það dróst lengi. En nú eru allir búnir að axla ábyrgð sem þurfa að gera það á þessu stigi – nema einn. Þjóðin fær fljótlega að kjósa nýja einstaklinga á þing og smám saman verða ýmsir dregnir fyrir dómstóla sem grunaðir eru um að hafa brotið lög.

Ég hafði hugsað mér að færa rök fyrir því að Davíð ætti að segja af sér, en það væri að bera í bakkafullan lækinn. Mér sýnist öllum vera það ljóst nema örfáum innvígðum og innmúruðum sjálfstæðismönnum. Sennilega byrgja múrarnir mönnum sýn.

Það var mjög áhugavert að lesa bréf Davíðs seðlabankastjóra til Jóhönnu forsætisráðherra og síðan bréfið sem Davíð forsætisráðherra sendi til Sverris bankastjóra árið 1996. Sem forsætisráðherra skrifaði Davíð m.a. „... en ef þið lagið ekki þvæluna, sem þið gerðuð í síðasta vaxtaóðagoti, er það endanlegt dæmi þess að þið vitið ekki hvað þið eruð að gera og þá mun ég sjá til þess fyrr en nokkurn grunar að menn komi að bankanum sem viti hvað þeir eru að gera.“ Hann mundi sennilega ekki eftir þessu bréfi þegar hann skrifaði um bréfið sem Jóhanna sendi honum: „Bréf af þessu tagi með lítt dulbúnum hótunum til embættismanna er einsdæmi, ekki eingöngu hér á landi, heldur einnig um allan hinn vestræna heim.“

Mér finnst reyndar eitt atriði ennþá áhugaverðara. Í bréfi sínu ítrekar Davíð þá skoðun sína, sem hann kynnti fyrir nokkrum vikum, að Geir H. Haarde hefði brugðist þjóðinni sem forsætisráðherra. Í bréfinu til Jóhönnu orðar hann það þannig: „Það verður æ fleiri mönnum ljóst að formaður bankastjórnar persónulega og bankastjórn Seðlabankans sameiginlega hafa á undanförnum árum aftur og aftur varað við því að í óefni stefndi í bankamálum þjóðarinnar og þrýst á þá sem ábyrgð báru um að bregðast við í tíma.“ Hér hlýtur hann að eiga einkum og sér í lagi við Geir H. Haarde forsætisráðherra. Davíð hefur m.a. vísað í samtal við ráðherra sem enginn ráðherra kannaðist við, nema Geir mundi eitthvað óljóst eftir því. Það lítur út fyrir að Davíð og Ingibjörg Sólrún séu alla vega sammála um eitt; að Geir hafi brugðist sem verkstjóri ríkisstjórnarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband