Hvað gerir Seðlabankinn núna?

Nú liggur fyrir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stendur ekki í vegi fyrir lækkun stýrivaxta. Einnig er ljóst að ráðherrar og samtök atvinnulífsins telja tímabært að lækka stýrivexti verulega. Tvær spurningar eru mér efst í huga.

Einföld spurning um frekar léttvægt atriði er: Hvenær lækkar Seðlabankinn vextina? Næsti vaxtadagur er 23. mars og líklega gerir hann það þá. Betra væri að hann gerði það strax í dag, en það skiptir ekki sköpum.

Stóra spurningin varðar það hvað lækkunin verður mikil. Verður það aumingjaleg lækkun um 2-4% eða skynsamleg lækkun um 6-10%? Í grófum dráttum má nálgast þessa ákvörðun á tvo vegu:

  • Ákvörðun um stýrivexti tekur mið af því hver verðbólgan hefur verið síðustu 3 eða 12 mánuði. Við "venjulegar aðstæður" getur verið eðlilegt að miða við síðustu 3 mánuði vegna þess að tilviljanakenndar breytingar milli einstakra mánaða geta skekkt heildarmyndina. Þeir sem hafa skilning á tölfræði, tímaröðum og því sem er að gerast á Íslandi vita að það er út í hött að horfa núna á síðustu 3 eða 12 mánuði. Í Vísbendingu, vikuriti um viðskipti og efnahagsmál frá því 27. febrúar síðastliðnum er þetta orðað svona: "Að hagfræðingur byggi ákvarðanir um stýrivexti á verðbólgunni eins og hún var, er svipað og ef veðurfræðingur klæddi sig alltaf í samræmi við meðalhita síðasta mánaðar í stað þess að líta á hitamælinn í dag".
  • Ákvörðun um stýrivexti tekur mið af því hver verðbólgan er núna og hvernig líklegt er að hún verði næstu 2 til 3 mánuði. Núna er verðbólgan um 6-7% eftir því hvernig er reiknað. Mér sýnist allt benda til þess að næstu 2 til 3 mánuði verði verðbólgan minna en 5%. (Allar tölur miða við ársgrundvöll.) Auðvitað á Seðlabankinn að nota þessa nálgun við ákvörðun stýrivaxta.

Fróðlegt verður að sjá hvað Seðlabankinn lækkar vexti mikið og hvernig hann rökstyður þá ákvörðun.


mbl.is Svigrúm til stýrivaxtalækkana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég veit ekki hvort þú hafir fylgst með skrifum mínum um stýrivexti, en ég hef ítrekað bent á að nær sé að miða stýrivexti við verðbólguvæntingar næstu 3 - 12 mánuði en fortíðarverðbólgu.  Ef menn vilja skoða fortíðina, þá sé nær að nota þriggja mánaða verðbólgu en ársverðbólgu.  Miðað við þá stefnu er gott svigrúm til að lækka stýrivexti jafnvel niður fyrir 10%.

Marinó G. Njálsson, 13.3.2009 kl. 12:51

2 Smámynd: Snjólfur Ólafsson

Ég hef lesið sumt af því sem þú skrifar og er oftast sammála (þó ekki um 20% niðurfellinguna). Ég veit líka að margir aðrir en ég sjá að það er fáránlegt núna að horfa á fortíðarverðbólguna, en fæstir stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn átta sig greinilega á því.

Snjólfur Ólafsson, 13.3.2009 kl. 13:21

3 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Sæll Snjólfur!

Ég er sammála þér um að hafa ber verðbólguvæntingar sem fremsta viðmið þegar stýrivaxtaákvarðanir eru teknar en eins og ég skil yfirlýsingu ríkisstjórnarninnar og Seðlabankans frá 2001 er bankanum gert að miða við verðlagsþróun síðustu tólf mánaða. Þetta er fest í lög og þeim þarf að breyta. Fyrr getur bankinn ekki leyft sér að miða við væntingar, sem mig hefur þó lengi grunað að hann hafi gert - og ekki farið leynt með.

Guðmundur Sverrir Þór, 13.3.2009 kl. 14:08

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Menn geta ekki verið sammála um allt, Snjólfur, en eitthvað verður að gera.  Það yrði stórt fyrsta skref að fá stýrivexti niður fyrir 10%.

Marinó G. Njálsson, 13.3.2009 kl. 17:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband