Líkkistur og laseraðgerðir

Nýsköpun er eitt af lykilatriðunum í því að vinna okkur út úr kreppunni og það er frábært að fylgjast með þeim nýsköpunarkrafti sem er greinilega í þjóðinni. Nýsköpun tekur á sig mjög ólíkar myndir og hefur margvíslegar afleiðingar. Eðli málsins samkvæmt tekst misvel til við nýsköpun og sumt sem gert er á sér enga framtíð, en margt lukkast vel. Nýsköpun er einn af lyklunum að því að skapa störf og afla gjaldeyris á næstu misserum og fátt er mikilvægara fyrir íslensku þjóðina á næstu misserum.

Með falli krónunnar hafa opnast margir möguleikar á að færa framleiðslu eða þjónustu til landsins og má nefna líkkistusmíð og laseraðgerðir sem dæmi. Í sjónvarpinu í gær var sagt frá smiðum sem tóku sig til þegar hefðbundin verkefni hurfu og fóru að smíða líkkistur. Nú er meirihluti líkkista fluttur inn, en lækkað gengi krónunnar gerir það að verkum að íslensk framleiðsla er vel samkeppnishæf í verði. Þetta skapar nokkur störf og hvert starf er mikilvægt.

Fyrirtækin Lasersjón og Sjónlag hafa boðið upp á sjónlagsaðgerðir í nokkur ár, svokallaðar laseraðgerðir. Útlendingar, einkum Færeyingar, hafa komið til Íslands í nokkrum mæli til að fara í slíkar aðgerðir, en með falli krónunnar skapast tækifæri til að fjölga verulega komum útlendinga í slíkar aðgerðir. Það er einkum undir fyrirtækjunum sjálfum komið hvernig til tekst og óhætt að vera bjartsýnn á að árangurinn geti orðið góður. Það eru tækifæri víðar í heilbrigðiskerfinu til að fá útlendinga til landsins og afla þannig gjaldeyris og skapa störf. Ríkisstjórnin mætti alveg ræða hvernig hún gæti auðveldað slíkt, en það er t.d. æskilegt að breyta lögum um auglýsingar á heilbrigðisþjónustu.

Sá mikli kraftur sem er í nýsköpun gefur mér von um bjarta framtíð á Íslandi, þótt næstu mánuðir verði mjög erfiðir og efnahagsástandið í heiminum sé ferlega slæmt. Nokkrir aðilar leika lykilhlutverk í nýsköpun á Íslandi, t.d. Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Rannís, en mjög margir aðrir skipta miklu máli.

Ísland var að mörgu leyti frábært land árin 2005 – 2007, ástandið mög ýkt að mörgu leyti og þjóðin á einskonar neyslufylliríi. Kannski má segja að um þessar mundir einkenni timburmenn ástandið, en það góða er að þjóðin vinnur nú hörðum höndum að því að leggja grunn að nýju og betra Íslandi. Þeir sem leika lykilhlutverk í nýsköpun eru að sjálfsögðu einstaklingarnir og fyrirtækin sem vinna að því að þróa nýjar vörur og skapa eitthvað nýtt.  Einn þáttur í þeirri vinnu er nýsköpun og mér sýnist að þar séum við á mjög góðu róli.


mbl.is Frumtak fjárfestir í Trackwell
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband