Peningatré og prentvélar

Ímyndum okkur að ég ætti peningatré en enginn annar. Í hverri viku væri uppskeran 1 milljón króna. Ég myndi þá lifa í vellistingum og peningaframleiðsla mín hefði engin áhrif á íslenska hagkerfið. Ég væri í góðum málum. Sama væri uppi á teningnum ef ég ætti löglega seðlaprentvél.

Ímyndum okkur nú að allir Íslendingar ættu peningatré eins og ég. Þá yrði fljótt offramboð af peningum og verðbólgan myndi æða af stað. Milljónin sem ég fengi í viku hverri yrði einskis virði.

Nú vill svo til að Seðlabankinn á löglega peningaprentvél og þjóðin á Seðlabankann. Nú eru aðstæður þannig að það vantar peninga í íslenska þjóðfélagið eins og reyndar í flest vestræn þjóðfélög. Mér sýnist að síðustu mánuði hafi peningaprentvélar flestra seðlabanka verið rauðglóandi við að prenta peninga, en þó ekki á Íslandi. Ég hef ekki séð að Seðlabanki Íslands hafi veri að prenta peninga í þeim mæli sem eðlilegt getur talist. Kannski breytist það núna í kjölfar mannabreytinga þar.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig peningar verði til og hvernig þeir komist til fyrirtækja og almennings. Það verða t.d. engir peningar til við það að skip veiðir fisk, fiskurinn er unninn og hann að lokum borðaður. Peningar fara hins vegar á milli manna í þessu ferli og það skapast verðmæti við fiskveiðar, fiskvinnslu, matreiðslu og neyslu.

Mér sýnist að kjarni málsins sé eftirfarandi (sleppum því að flækja málið með því að peningar eru almennt rafrænir nú til dags): Seðlabankinn prentar peninga og kemur þeim út í þjóðfélagið á tvo vegu. Annars vegar lánar Seðlabankinn fjármálastofnunum peninga sem geta margfaldað þá. Hins vegar lætur Seðlabankinn ríkið fá peninga sem komast út í þjóðfélagið sem ríkisútgjöld.

Ríkisstjórnin er búin að gera ýmislegt gott síðustu vikurnar en tvö mikilvægustu verkefnin láta enn á sér standa. Næstum allir eru sammála því að lækkun vaxta sé brýnasta og mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar. Það er gjörsamlega óskiljanlegt hvers vegna stýrivextir eru ennþá 18%. Hitt verkefnið er að gera bankana almennilega starfhæfa, meðal annars til þess að þeir geti komið peningunum sem Seðlabankinn prentar til þjóðarinnar.

Ég varpa hér fram hugmynd varðandi peningaprentun og ríkisútgjöld: Hvernig væri að Seðlabankinn prentaði 50 milljarða króna og gæfi ríkissjóði? Það myndi minnka hallann á fjárlögum mikið og auðvelda þjóðinni að takast á við erfiðleikana sem eru framundan.

Seðlabankinn má ekki prenta svo mikið af peningum að verðbólgan fari af stað vegna þess en sú hætta er ekki í augsýn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband