Veiðum hvali

Ákvörðun fráfarandi sjávarútvegsráðherra um að leyfa hvalveiðar er mjög umdeild eins og vænta mátti. Gagnrýnin varðar bæði það hvenær og hvernig ákvörðunin var tekin, sem og innihald hennar.

Ég tek heils hugar undir það sjónarmið að ráðherra í starfsstjórn eigi alls ekki að taka ákvörðun sem þessa rétt áður en hann lætur af störfum. Það getur hvorki talist æskilegt né eðlilegt.

En er æskilegt að Íslendingar veiði hvali í þeim mæli sem ákvörðun var tekin um? Væri gott eða slæmt að sú ríkisstjórn sem er að taka við dragi ákvörðun sjávarútvegsráðherra til baka? Það er ekki til eitt rétt svar við þessum spurningum og um þær hljóta að verða skiptar skoðanir. Sjálfur tel ég það vera mikil mistök ef ríkisstjórnin dregur þessa ákvörðun til baka.

Rökin sem mæla með hvalveiðum eru flest skýr og mörg þeirra studd staðreyndum og tölum. Sea Shepherd samtökin fullyrða „að þeir [þ.e. Íslendingar] vilji slátra 150 langreyðum í útrýmingarhættu“, en þetta er einfaldlega rangt því hvalveiðar Íslendingar eru sjálfbærar. Þessar veiðar myndu skapa fjölmörg störf á næstu mánuðum og það er ákaflega mikilvægt eins og staðan er í þjóðfélaginu. Samkæmt viðtali við Gunnar Bergmann Jónsson 27. janúar síðastliðinn þá má búast við því að strax á næstu dögum skapi ákvörðunin vinnu á Akranesi. Hvalveiðarnar munu mjög líklega afla þjóðinni gjaldeyris enda þótt það sé mjög erfitt að áætla hve mikið það yrði.

Rök gegn hvalveiðum eru fjölbreytt en mér sýnist þessi heyrast oftast:

  • Hvalveiðar hafa vond áhrif á ímynd þjóðarinnar.
  • Hvalveiðar skemma fyrir hvalaskoðunarfyrirtækjum.
  • Hvalir eru gáfuð og falleg spendýr.

Undanfarin ár hef ég lagt mig fram um að fylgjast með umræðunni um hvalveiðar með áherslu á hvernig menn nota tölur til að færa rök með eða á móti hvalveiðum. Sem sérfræðingur í tölfræði og greiningu viðfangsefna leyfi ég mér að fullyrða að það er ekki mögulegt að færa sterk rök fyrir neinni af þessum þremur fullyrðingum. Það er hægt að draga fram ótal vísbendingar sem styðja eða stríða gegn öllum þessum fullyrðingum. Það verður því hver og einn að ákveða hverju hann vill trúa í þeim efnum.

Viðbrögð við ákvörðun ráðherra sýna vel hvað margir hafa sterkar tilfinningar til hvalveiða og hvað rök gegn hvalveiðum eru oft ótrúverðug. Sem dæmi þá segir Árni Finnsson, formaður Náttúrverndarsamtaka Íslands „að þessi ákvörðun sjávarútvegsráðherra muni spilla fyrir samstarfi Íslands við önnur ríki og viðskiptum á lykilmörkuðum þar sem Íslendingar þurfi sem mest á góðum aðgangi og velvild að halda“. Það er athyglisvert að skoða lög og stefnu Náttúrverndarsamtaka Íslands þar sem segir m.a. „nýting og verndum lífríkis sjávar verður ávallt að grundvallast á vísindalegri þekkingu á útbreiðslu, magni og veiðiþoli viðkomandi stofns“. Ákvörðun um hvalveiðar nú virðast þannig vera í góðu samræmi við stefnu samtakanna og kannski var Árni ekki að tjá sig sem formaður samtakanna. Ummæl Árna benda til þess að hann telji sig vera sérfræðing í alþjóðaviðskiptum og hann var kannski að tjá sig sem slíkur.

Ef sú ríkisstjórn sem er að taka við völdum ætlar að banna hvalveiðar og auka þar með á atvinnuleysið, þá geng ég út frá því að sú ákvörðun verði studd trúverðugum rökum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband