21.2.2009 | 18:03
Vaxtalækkun í næstu viku
Mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar í næstu viku er að sjá til þess að stýrivextir lækki umtalsvert, t.d. úr 18% í 12%. Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra leika aðalhlutverk í þessu verkefni. Þeir þurfa að sannfæra fulltrúa Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um að nú sé góður leikur í stöðunni að lækka vexti. (Seðlabankinn þarf víst líka að koma að málinu.)
Almennt séð eru þrenns konar rök fyrir því að halda stýrivöxtum háum.1. Þau rök sem oftast eru dregin fram fyrir háum stýrivöxtum er að draga úr þenslu og þar með verðbólgu. Þau rök eiga ekki við um þessar mundir, hvorki á Íslandi eða í öðrum löndum, þvert á móti hafa flest lönd lækkað stýrivexti niður úr öllu valdi.
2. Stýrivextir eru yfirleitt hafðir hærri en verðbólgan til þess að raunvextir séu jákvæðir. Það má draga í efa að þetta sé alltaf skynsamlegt, en flestir hagfræðingar og ráðamenn á Íslandi telja að stýrivextir eigi að vera hærri en verðbólgan. Verðbólgan hefur verið há síðustu mánuði og þessi rök hafa þannig átt við. Nú eiga þau hins vegar ekki við lengur eins og sýnt verður fram á hér á eftir.
3. Seðlabanki Íslends hefur notað þriðju rökin fyrir háum stýrivöxtum sem eru að það þurfi háa stýrivexti til að halda í erlent fjármagn, m.a. svokölluð jöklabréf. Þetta er ekki gert í öðrum vestrænum löndum svo neinu nemi, enda endurspeglar þetta arfavitlausa hugmyndafræði.
Er verðbólgan núna orðin það lítil og verður hún það lítil á næstu mánuðum að réttlætanlegt sé að lækka stýrivexti? Ég tel ljóst að svo sé en því miður er engin ein rétt leið til að reikna verðbólgu og ekki hægt að vita hvað framtíðin ber í skauti sínu.Ég fór á vef Hagstofunnar í gær og þar eru upplýsingar um margar vísitölur. Ég valdi að horfa á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar og náði í tölur um hana og skoðaði breytingu milli mánaða. Ég reiknaði hana síðan á ársgrundvelli en venja er að nota ár sem tímaeiningu þegar rætt er um verðbólgu. Tölurnar sem ég reiknaði segja þannig hvað verðlag myndi hækka mikið á einu ári ef verð hækkaði jafn mikið 12 mánuði í röð.
Á línuriti sem fylgir með þessu bloggi sést hvernig verðbólgan hefur þróast á árinu og fyrstu mánuði þessa árs. (Nýjasta talan er fyrir mars en byggir væntanlega á tölum fyrir febrúar.) Á línuritinu sjást tvö verðbólguskot. Seinna verðbólguskotið endar á tölunum desember = 29,2%, janúar = 23%, febrúar = 19,9% og mars = 7,1%. Verðbólgan er sem sagt komin niður í 7,1%.
En hvernig mun verðbólgan þróast á næstu mánuðum? Allar líkur eru á að hún verði lægri á næstu mánuðum en hún er nú og eru tvenn meginrök fyrir því. Annars vegar er líklegt að áhrif af gengisfalli íslensku krónunnar séu nú að fullu komin inn í verðbólguna, en gengið hefur styrkst síðustu vikurnar. Hins vegar mun fasteignaverð falla nokkuð hratt næstu mánuðina.Kæra ríkisstjórn, sýndu nú hvað í þér býr og gerðu það sem gera þarf til þess að vextir lækki í næstu viku.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.