Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
23.4.2009 | 15:47
Vilja allir stjórnmálaflokkarnir viðhalda óréttlætinu?
Mér hefur ofboðið ýmislegt á síðustu vikum en ekki gefið mér tíma til að blogga um það. Fréttin um óréttlætið sem felst í því að vægi atkvæðis íbúa á Akranesi (og annarra í Norðvesturkjördæmi) vegur helmingi meira en atkvæði mitt á laugardaginn, ýtti við mér. Ég hef fylgst sæmilega með kosningabaráttunni að undanförnu og ekki orðið var við að neinn stjórnmálaflokkur vilji breyta þessu. Ætli það sé þannig?
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að allt landið ætti að vera eitt kjördæmi. Ég lýsi eftir stjórnmálflokki sem vill berjast fyrir því að breyta kosningalögum þannig að það verði niðurstaðan.
Enginn stjórnmálaflokkanna er nálægt því að vera fullkominn að mínu mati og auðvelt að benda á alvarlega veikleika hjá öllum, að vísu auðveldara hjá sumum en öðrum. Það er kannski táknrænt fyrir eitt framboðið að í gömlu myndaalbúmi eru nokkrar myndir mjög upplitaðar, en þær voru framkallaðar af Myndiðjunni Ástþóri.
Eitt af því lélegasta sem ég hef séð í kosningabaráttunni er grein Sigurðar Kára í Morgunblaðinu í morgun. Hann dregur þar fram nokkur dæmi sem styðja þá skoðun að ríkisstjórnin fái falleinkunn m.a. þessar:
- Atvinnulausir voru um 12.000 þegar ríkisstjórnin tók við en er nú 18.000.
- Verðmæti fasteigna hefur rýrnað.
- Gjaldþrota fyrirtækjum hefur fjölgað.
Getur verið að Sigurður Kári sé svo fáfróður að hann haldi að þetta segi eitthvað um það hvort ríkisstjórnin hafi staðið sig vel eða illa? Eða er þetta bara gott dæmi um vísvitandi blekkingar stjórnmálamanns?
Allir sem hafa sett sig inn í málið hafa vitað í marga mánuði að atvinnuleysi myndi aukast eitthvað í þeim dúr sem það gerði ALVEG ÓHÁÐ ÞVÍ HVAÐ RÍKISSTJÓRNIN GERÐI.
Allir sem hafa sett sig inn í málið hafa vitað í marga mánuði (sumir í nokkur ár) að verðmæti fasteigna myndi rýrna og vita að það mun rýrna a.m.k. næstu 12 mánuði ALVEG ÓHÁÐ ÞVÍ HVAÐ RÍKISSTJÓRNIN GERÐI OG HVAÐ NÆSTA RÍKISSTJÓRN MUN GERA.
Allir sem hafa sett sig inn í málið hafa vitað í marga mánuði að gjaldþrotum fyrirtækja myndi fjölga á umræddu tímabili ALVEG ÓHÁÐ ÞVÍ HVAÐ RÍKISSTJÓRNIN GERÐI.
Sigurður Kári ætti að skammast sín.
Tvöfaldur munur á atkvæðavægi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.3.2009 | 12:24
Hvað gerir Seðlabankinn núna?
Nú liggur fyrir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stendur ekki í vegi fyrir lækkun stýrivaxta. Einnig er ljóst að ráðherrar og samtök atvinnulífsins telja tímabært að lækka stýrivexti verulega. Tvær spurningar eru mér efst í huga.
Einföld spurning um frekar léttvægt atriði er: Hvenær lækkar Seðlabankinn vextina? Næsti vaxtadagur er 23. mars og líklega gerir hann það þá. Betra væri að hann gerði það strax í dag, en það skiptir ekki sköpum.
Stóra spurningin varðar það hvað lækkunin verður mikil. Verður það aumingjaleg lækkun um 2-4% eða skynsamleg lækkun um 6-10%? Í grófum dráttum má nálgast þessa ákvörðun á tvo vegu:
- Ákvörðun um stýrivexti tekur mið af því hver verðbólgan hefur verið síðustu 3 eða 12 mánuði. Við "venjulegar aðstæður" getur verið eðlilegt að miða við síðustu 3 mánuði vegna þess að tilviljanakenndar breytingar milli einstakra mánaða geta skekkt heildarmyndina. Þeir sem hafa skilning á tölfræði, tímaröðum og því sem er að gerast á Íslandi vita að það er út í hött að horfa núna á síðustu 3 eða 12 mánuði. Í Vísbendingu, vikuriti um viðskipti og efnahagsmál frá því 27. febrúar síðastliðnum er þetta orðað svona: "Að hagfræðingur byggi ákvarðanir um stýrivexti á verðbólgunni eins og hún var, er svipað og ef veðurfræðingur klæddi sig alltaf í samræmi við meðalhita síðasta mánaðar í stað þess að líta á hitamælinn í dag".
- Ákvörðun um stýrivexti tekur mið af því hver verðbólgan er núna og hvernig líklegt er að hún verði næstu 2 til 3 mánuði. Núna er verðbólgan um 6-7% eftir því hvernig er reiknað. Mér sýnist allt benda til þess að næstu 2 til 3 mánuði verði verðbólgan minna en 5%. (Allar tölur miða við ársgrundvöll.) Auðvitað á Seðlabankinn að nota þessa nálgun við ákvörðun stýrivaxta.
Fróðlegt verður að sjá hvað Seðlabankinn lækkar vexti mikið og hvernig hann rökstyður þá ákvörðun.
Svigrúm til stýrivaxtalækkana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.3.2009 | 11:46
Peningatré og prentvélar
Ímyndum okkur að ég ætti peningatré en enginn annar. Í hverri viku væri uppskeran 1 milljón króna. Ég myndi þá lifa í vellistingum og peningaframleiðsla mín hefði engin áhrif á íslenska hagkerfið. Ég væri í góðum málum. Sama væri uppi á teningnum ef ég ætti löglega seðlaprentvél.
Ímyndum okkur nú að allir Íslendingar ættu peningatré eins og ég. Þá yrði fljótt offramboð af peningum og verðbólgan myndi æða af stað. Milljónin sem ég fengi í viku hverri yrði einskis virði.
Nú vill svo til að Seðlabankinn á löglega peningaprentvél og þjóðin á Seðlabankann. Nú eru aðstæður þannig að það vantar peninga í íslenska þjóðfélagið eins og reyndar í flest vestræn þjóðfélög. Mér sýnist að síðustu mánuði hafi peningaprentvélar flestra seðlabanka verið rauðglóandi við að prenta peninga, en þó ekki á Íslandi. Ég hef ekki séð að Seðlabanki Íslands hafi veri að prenta peninga í þeim mæli sem eðlilegt getur talist. Kannski breytist það núna í kjölfar mannabreytinga þar.
Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig peningar verði til og hvernig þeir komist til fyrirtækja og almennings. Það verða t.d. engir peningar til við það að skip veiðir fisk, fiskurinn er unninn og hann að lokum borðaður. Peningar fara hins vegar á milli manna í þessu ferli og það skapast verðmæti við fiskveiðar, fiskvinnslu, matreiðslu og neyslu.
Mér sýnist að kjarni málsins sé eftirfarandi (sleppum því að flækja málið með því að peningar eru almennt rafrænir nú til dags): Seðlabankinn prentar peninga og kemur þeim út í þjóðfélagið á tvo vegu. Annars vegar lánar Seðlabankinn fjármálastofnunum peninga sem geta margfaldað þá. Hins vegar lætur Seðlabankinn ríkið fá peninga sem komast út í þjóðfélagið sem ríkisútgjöld.
Ríkisstjórnin er búin að gera ýmislegt gott síðustu vikurnar en tvö mikilvægustu verkefnin láta enn á sér standa. Næstum allir eru sammála því að lækkun vaxta sé brýnasta og mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar. Það er gjörsamlega óskiljanlegt hvers vegna stýrivextir eru ennþá 18%. Hitt verkefnið er að gera bankana almennilega starfhæfa, meðal annars til þess að þeir geti komið peningunum sem Seðlabankinn prentar til þjóðarinnar.
Ég varpa hér fram hugmynd varðandi peningaprentun og ríkisútgjöld: Hvernig væri að Seðlabankinn prentaði 50 milljarða króna og gæfi ríkissjóði? Það myndi minnka hallann á fjárlögum mikið og auðvelda þjóðinni að takast á við erfiðleikana sem eru framundan.
Seðlabankinn má ekki prenta svo mikið af peningum að verðbólgan fari af stað vegna þess en sú hætta er ekki í augsýn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2009 | 10:16
Vaxtalækkun er brýnasta viðfangsefnið
Eins og segir í tilkynningu frá bankanum, er eitt af meginviðfangsefnum viðræðna stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem nú standi yfir, mat á því hvort forsendur þess, að hægt sé gefa fjármagnsflutninga á milli Íslands og annarra landa frjálsa á ný, séu fyrir hendi.
Hins vegar er jafn mikilvægt og miklu brýnna viðfangsefni viðræðnanna að ákveða vaxtalækkun strax. Verðbólgan er núna komin niður í um 7% þannig að raunvextir stýrivaxta eru 11% sem eru sannkallaðir okurvextir. Vextir sem lánþegar greiða bönkunum eru síðan enn hærri.
Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er 19. mars. Ég held að það væri mjög auðvelt að færa rök fyrir því að lækka stýrivexti strax í dag um 4% og stíga síðan næsta vaxtalækkunarskref 19. mars.
Tillaga Framsóknarflokksins um 20% lækkun skulda verður örugglega ekki samþykkt vegna þess að gallarnir við hana eru svo stórkostlegir. Hins vegar endurspeglar tillagan þá miklu þörf sem er til staðar að lækka skuldabirgði heimilanna og stjórnvöld verða að bregðast hratt við þessari þörf. Það þarf að gera margt til dæmis að breyta lögum og reglum um greiðsluaðlögun í þeim dúr sem ASÍ berst fyrir og að því er unnið í ríkisstjórninni.
Greiðslubyrði má lækka á tvo vegu, með því að lækka höfuðstólinn og með því að lækka vaxtagreiðslur. Það er mjög vandfundin réttlát og skynsamleg leið til að lækka höfuðstól skulda hjá mjög mörgum. Hins vegar er auðfundin réttlát og skynsamleg leið til að lækka vaxtagreiðslur hjá mjög mörgum, nefnilega sú að Seðlabankinn lækki stýrivexti. Það er engin ástæða til að bíða með það, það er reyndar löngu orðið tímabært.
Ef stjórnvöld ætla að halda áfram með 18% stýrivexti í 7% verðbólgu væri ákaflega gott að fá að sjá rök fyrir því.
Gjaldeyrishöft ekki afnumin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.2.2009 | 10:51
Verðbólgan er 6,3%
Betri fyrirsögn á fréttinni hefði verið: Verðbólgan mælist 6,3%
Síðustu mælingar á verðbólgunni (vísitölu neysluverðs) eru, þar sem fyrsta talan er fyrir september á síðasta ári og nýjast er fyrir febrúar:
11,4% 29,8% 23,0% 19,9% 7,1% 6,3%
Hér er breyting milli mánaða umreiknuð á ársgrundvöll þannig að talan segir hvað verðlag myndi hækka mikið á einu ári ef breyting milli mánaða yrði jafn mikil í heilt ár. Það gefur ekki góða mynd af þróuninni að taka saman síðustu tólf mánuði eins og gert er í fyrirsögninni og heldur ekki síðustu þrjá mánuði eins og gert er í fréttinni.
Sem sagt, nú er tímabært að lækka stýrivexti mikið
Verðbólga mælist 17,6% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.2.2009 | 18:03
Vaxtalækkun í næstu viku
Mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar í næstu viku er að sjá til þess að stýrivextir lækki umtalsvert, t.d. úr 18% í 12%. Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra leika aðalhlutverk í þessu verkefni. Þeir þurfa að sannfæra fulltrúa Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um að nú sé góður leikur í stöðunni að lækka vexti. (Seðlabankinn þarf víst líka að koma að málinu.)
Almennt séð eru þrenns konar rök fyrir því að halda stýrivöxtum háum.1. Þau rök sem oftast eru dregin fram fyrir háum stýrivöxtum er að draga úr þenslu og þar með verðbólgu. Þau rök eiga ekki við um þessar mundir, hvorki á Íslandi eða í öðrum löndum, þvert á móti hafa flest lönd lækkað stýrivexti niður úr öllu valdi.
2. Stýrivextir eru yfirleitt hafðir hærri en verðbólgan til þess að raunvextir séu jákvæðir. Það má draga í efa að þetta sé alltaf skynsamlegt, en flestir hagfræðingar og ráðamenn á Íslandi telja að stýrivextir eigi að vera hærri en verðbólgan. Verðbólgan hefur verið há síðustu mánuði og þessi rök hafa þannig átt við. Nú eiga þau hins vegar ekki við lengur eins og sýnt verður fram á hér á eftir.
3. Seðlabanki Íslends hefur notað þriðju rökin fyrir háum stýrivöxtum sem eru að það þurfi háa stýrivexti til að halda í erlent fjármagn, m.a. svokölluð jöklabréf. Þetta er ekki gert í öðrum vestrænum löndum svo neinu nemi, enda endurspeglar þetta arfavitlausa hugmyndafræði.
Er verðbólgan núna orðin það lítil og verður hún það lítil á næstu mánuðum að réttlætanlegt sé að lækka stýrivexti? Ég tel ljóst að svo sé en því miður er engin ein rétt leið til að reikna verðbólgu og ekki hægt að vita hvað framtíðin ber í skauti sínu.Ég fór á vef Hagstofunnar í gær og þar eru upplýsingar um margar vísitölur. Ég valdi að horfa á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar og náði í tölur um hana og skoðaði breytingu milli mánaða. Ég reiknaði hana síðan á ársgrundvelli en venja er að nota ár sem tímaeiningu þegar rætt er um verðbólgu. Tölurnar sem ég reiknaði segja þannig hvað verðlag myndi hækka mikið á einu ári ef verð hækkaði jafn mikið 12 mánuði í röð.
Á línuriti sem fylgir með þessu bloggi sést hvernig verðbólgan hefur þróast á árinu og fyrstu mánuði þessa árs. (Nýjasta talan er fyrir mars en byggir væntanlega á tölum fyrir febrúar.) Á línuritinu sjást tvö verðbólguskot. Seinna verðbólguskotið endar á tölunum desember = 29,2%, janúar = 23%, febrúar = 19,9% og mars = 7,1%. Verðbólgan er sem sagt komin niður í 7,1%.
En hvernig mun verðbólgan þróast á næstu mánuðum? Allar líkur eru á að hún verði lægri á næstu mánuðum en hún er nú og eru tvenn meginrök fyrir því. Annars vegar er líklegt að áhrif af gengisfalli íslensku krónunnar séu nú að fullu komin inn í verðbólguna, en gengið hefur styrkst síðustu vikurnar. Hins vegar mun fasteignaverð falla nokkuð hratt næstu mánuðina.Kæra ríkisstjórn, sýndu nú hvað í þér býr og gerðu það sem gera þarf til þess að vextir lækki í næstu viku.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2009 | 17:24
Flott hjá Katrínu og Hönnu Birnu
Það er ljóst að ríkisstjórnin er óhrædd við að taka ákvarðanir og hrinda verkefnum í framkvæmd og það er frábær breyting frá fyrri ríkisstjórn!
Vissulega má færa rök fyrir því að þjóðin hafi ekki efni á að setja háa upphæð í þetta verkefni, en ég er sammála þeim sem tóku þessa ákvörðun um að rökin með því að gera það vegi þyngra. Það er vissulega mikilvægt að skapa störf sem þetta verkefni mun gera. Það er ekki síður mikilvægt að þegar húsið er komið í notkun mun starfsemin þar skapa mörg störf og opna möguleika fyrir því að afla gjaldeyris. Það er líka sjálfsagt að leita leiða til að draga úr kostnaði og að sem mest af störfunum verði á Íslandi.
Það sem ræður sennilega úrslitum í mínum huga varðandi það hvort rétt sé að ljúka byggingu hússins er hugsunin um hinn valkostinn. Ef ráðamenn hefðu hætt við ljúka byggingu hússins hefðu í raun verið tveir mjög slæmir kostir í stöðunni. Annar væri að verja miklu fé til að jafna húsið við jörðu og eyða verksummerkjum. Hinn væri að hafa ömurlega hálfkláraða byggingu í hjarta Reykjavíkur í mörg ár. Það má því segja að það sé mikilvægt fyrir þjóðarsálina að ljúka byggingu hússins.
Allt að 600 störf vegna framkvæmda við Tónlistarhús | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.2.2009 | 14:33
Árangur ríkisstjórnarinnar metinn
Fyrir Alþingiskosningar deila stjórn og stjórnarandstaða um það hvernig stjórnin hafi staðið sig og eru innilega ósammála. Í pólitík er nefnilega venja að skilgreina hvað telst vera góður árangur eftir á. Stjórn og stjórnarandstaða skilgreina þannig árangur á þann hátt sem hentar þeim hverju sinni og munu aldrei verða sammála. Hér ætla ég að skilgreina hvað telst vera góður árangur ríkisstjórnarinnar fyrirfram.
Ég styðst við aðferðafræði sem ég kenni í meistaranámskeiðinu Mati á árangri og framkvæmd stefnu. Síðasti tíminn í því námskeiði verður 22. apríl og þá mun ég fara yfir árangurinn með nemendum.
Við framkvæmd stefnu má skilgreina tvær tegundir skýrra markmiða sem unnt er að segja til um hvort nást eða ekki. Annars vegar eru það markmið um að ljúka tilteknu verkefni fyrir tiltekinn tíma. Hins vegar eru það markmið um að tilteknir mælikvarðar taki tiltekið gildi, svokallaðir árangursmælikvarðar.
Verkefni sem ríkisstjórnin þarf að ljúka eru skilgreind af mér en byggja mest á því sem ráðherrar og ýmsir sérfræðingar hafa sagt að undanförnu. Frumskilyrði fyrir því að verkefni komist á þennan lista er að það sé hægt að skilgreina árangurinn það nákvæmlega að menn verði sammála um hvort verkinu hafi lokið með þeim árangri sem stefnt er að og fyrir tilsettan tíma. Verkefnin eru þessi:
1. Endurnýja í bankastjórn Seðlabankans fyrir 22. apríl. Þetta er nauðsynlegt til þess að koma á trausti og trúverðugleika bæði hér heima og erlendis.
2. Búið verði að ákveða efnahagsreikninga nýju bankanna þriggja og leysa vanda minni fjármálafyrirtækja fyrir páska. Fyrr verður ekki hægt að koma á eðlilegu fjármálakerfi.
3. Gjaldeyrishöft verði afnumin. Þann 22. apríl verði frelsi í gjaldeyrisviðskiptum orðið jafn mikið og það var fyrir ári. (Kannski er þetta óraunhæft og í staðinn mætti þá koma: Aðgerðaáætlun til þess að aflétta gjaldeyrishöftum í samráði við Seðlabankann og AGS liggi fyrir.)
4. Fyrir páska verði búið að samþykkja lög um greiðsluaðlögun, nauðungaruppboð og gjaldþrot.
5. Fyrir páska verði búið að kynna tímasetta áætlun um opinberar framkvæmdir og útboð á árinu.6. Staðfesta ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar um hvalveiðar fyrir 20. febrúar, en ég hef útskýrt nauðsyn þess í fyrri blogg-færslum mínum.
7. Taka endanlega ákvörðun um framtíð St. Jósefsspítala fyrir lok febrúar.Það er ekki auðvelt að skilgreina árangursmælikvarða fyrir ríkisstjórnina, einkum vegna þess hve stutt hún situr við völd. Hér eru skilgreindir tveir mælikvarðar:
1. Stýrivextir. Þessi mælikvarði segir mjög mikið um hve vel ríkisstjórnin stendur sig. Ríkisstjórnin getur haft mjög mikil áhrif á stýrivexti á næstu vikum. Hún þarf m.a. að gera góðar áætlanir, taka góðar ákvarðanir og sannfæra fulltrúa AGS og Seðlabankans. Ríkisstjórnin hefur ekki sett fram tölur um hvað telst vera góður árangur en hér er tillaga sem byggir á mínu mati á því hvað er raunhæft. Það einfaldlega verður að ná stýrivöxtum niður hratt og mikið, til að lágmarka fjölda gjaldþrota, sem verða allt of mörg samt sem áður. Ef stýrivextir verða lægri en 7% þann 22. apríl þá telst árangurinn vera góður. Ef stýrivextir seðlabankans verða hærri en 10% þá er árangurinn lélegur. Ef stýrivextir eru á bilinu 7% til 10% þá telst árangurinn vera þokkalegur.
2. Atvinnuleysi. Þessi mælikvarði er kannski hæpinn. Það er óljóst hvað ríkisstjórnin getur haft mikil áhrif á atvinnu í apríl og kannski ætti þetta frekar að vera einn af árangursmælikvörðunum fyrir næstu ríkisstjórn. Ef atvinnuleysi minnkar frá 1. til 21. apríl þá telst árangur ríkisstjórnarinnar vera góður. Ef atvinnulausum fjölgar um meira en 300 á þessu tímabili þá telst árangurinn vera lélegur. Annars er árangurinn þokkalegur.
Þann 22. apríl mun ég og nemendur mínir nota þessi verkefni og árangursmælikvarða til þess að meta árangur ríkisstjórnarinnar. Öðrum er frjálst að nota þetta að vild.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2009 | 23:44
Ljónið Davíð
Ljónið er konungur villidýranna. Davíð er ekki villidýr í eiginlegri merkingu og Davíð er ekki konungur. En Davíð er ljón á veginum að nýju þjóðfélagi á Íslandi.Þjóðin þarf sem fyrst að geta einbeitt sér að uppbyggingarstarfi og liður í því er að skipta um einstaklinga sem gegndu lykilhlutverkum í atburðarrásinni í hruninu mikla. Það var bæði sterk og eðlileg krafa þjóðarinnar að einhverjir myndu axla ábyrgð og það voru mikil mistök hvað það dróst lengi. En nú eru allir búnir að axla ábyrgð sem þurfa að gera það á þessu stigi nema einn. Þjóðin fær fljótlega að kjósa nýja einstaklinga á þing og smám saman verða ýmsir dregnir fyrir dómstóla sem grunaðir eru um að hafa brotið lög.
Ég hafði hugsað mér að færa rök fyrir því að Davíð ætti að segja af sér, en það væri að bera í bakkafullan lækinn. Mér sýnist öllum vera það ljóst nema örfáum innvígðum og innmúruðum sjálfstæðismönnum. Sennilega byrgja múrarnir mönnum sýn.
Það var mjög áhugavert að lesa bréf Davíðs seðlabankastjóra til Jóhönnu forsætisráðherra og síðan bréfið sem Davíð forsætisráðherra sendi til Sverris bankastjóra árið 1996. Sem forsætisráðherra skrifaði Davíð m.a. ... en ef þið lagið ekki þvæluna, sem þið gerðuð í síðasta vaxtaóðagoti, er það endanlegt dæmi þess að þið vitið ekki hvað þið eruð að gera og þá mun ég sjá til þess fyrr en nokkurn grunar að menn komi að bankanum sem viti hvað þeir eru að gera. Hann mundi sennilega ekki eftir þessu bréfi þegar hann skrifaði um bréfið sem Jóhanna sendi honum: Bréf af þessu tagi með lítt dulbúnum hótunum til embættismanna er einsdæmi, ekki eingöngu hér á landi, heldur einnig um allan hinn vestræna heim.
Mér finnst reyndar eitt atriði ennþá áhugaverðara. Í bréfi sínu ítrekar Davíð þá skoðun sína, sem hann kynnti fyrir nokkrum vikum, að Geir H. Haarde hefði brugðist þjóðinni sem forsætisráðherra. Í bréfinu til Jóhönnu orðar hann það þannig: Það verður æ fleiri mönnum ljóst að formaður bankastjórnar persónulega og bankastjórn Seðlabankans sameiginlega hafa á undanförnum árum aftur og aftur varað við því að í óefni stefndi í bankamálum þjóðarinnar og þrýst á þá sem ábyrgð báru um að bregðast við í tíma. Hér hlýtur hann að eiga einkum og sér í lagi við Geir H. Haarde forsætisráðherra. Davíð hefur m.a. vísað í samtal við ráðherra sem enginn ráðherra kannaðist við, nema Geir mundi eitthvað óljóst eftir því. Það lítur út fyrir að Davíð og Ingibjörg Sólrún séu alla vega sammála um eitt; að Geir hafi brugðist sem verkstjóri ríkisstjórnarinnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.2.2009 kl. 08:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.2.2009 | 13:14
Líkkistur og laseraðgerðir
Nýsköpun er eitt af lykilatriðunum í því að vinna okkur út úr kreppunni og það er frábært að fylgjast með þeim nýsköpunarkrafti sem er greinilega í þjóðinni. Nýsköpun tekur á sig mjög ólíkar myndir og hefur margvíslegar afleiðingar. Eðli málsins samkvæmt tekst misvel til við nýsköpun og sumt sem gert er á sér enga framtíð, en margt lukkast vel. Nýsköpun er einn af lyklunum að því að skapa störf og afla gjaldeyris á næstu misserum og fátt er mikilvægara fyrir íslensku þjóðina á næstu misserum.
Með falli krónunnar hafa opnast margir möguleikar á að færa framleiðslu eða þjónustu til landsins og má nefna líkkistusmíð og laseraðgerðir sem dæmi. Í sjónvarpinu í gær var sagt frá smiðum sem tóku sig til þegar hefðbundin verkefni hurfu og fóru að smíða líkkistur. Nú er meirihluti líkkista fluttur inn, en lækkað gengi krónunnar gerir það að verkum að íslensk framleiðsla er vel samkeppnishæf í verði. Þetta skapar nokkur störf og hvert starf er mikilvægt.
Fyrirtækin Lasersjón og Sjónlag hafa boðið upp á sjónlagsaðgerðir í nokkur ár, svokallaðar laseraðgerðir. Útlendingar, einkum Færeyingar, hafa komið til Íslands í nokkrum mæli til að fara í slíkar aðgerðir, en með falli krónunnar skapast tækifæri til að fjölga verulega komum útlendinga í slíkar aðgerðir. Það er einkum undir fyrirtækjunum sjálfum komið hvernig til tekst og óhætt að vera bjartsýnn á að árangurinn geti orðið góður. Það eru tækifæri víðar í heilbrigðiskerfinu til að fá útlendinga til landsins og afla þannig gjaldeyris og skapa störf. Ríkisstjórnin mætti alveg ræða hvernig hún gæti auðveldað slíkt, en það er t.d. æskilegt að breyta lögum um auglýsingar á heilbrigðisþjónustu.
Sá mikli kraftur sem er í nýsköpun gefur mér von um bjarta framtíð á Íslandi, þótt næstu mánuðir verði mjög erfiðir og efnahagsástandið í heiminum sé ferlega slæmt. Nokkrir aðilar leika lykilhlutverk í nýsköpun á Íslandi, t.d. Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Rannís, en mjög margir aðrir skipta miklu máli.
Ísland var að mörgu leyti frábært land árin 2005 2007, ástandið mög ýkt að mörgu leyti og þjóðin á einskonar neyslufylliríi. Kannski má segja að um þessar mundir einkenni timburmenn ástandið, en það góða er að þjóðin vinnur nú hörðum höndum að því að leggja grunn að nýju og betra Íslandi. Þeir sem leika lykilhlutverk í nýsköpun eru að sjálfsögðu einstaklingarnir og fyrirtækin sem vinna að því að þróa nýjar vörur og skapa eitthvað nýtt. Einn þáttur í þeirri vinnu er nýsköpun og mér sýnist að þar séum við á mjög góðu róli.
Frumtak fjárfestir í Trackwell | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |