Störf og atvinnuleysi

Fátt er mikilvægara fyrir íslensku þjóðina á næstu mánuðum en að atvinnuleysi verði eins lítið  og hugsast getur. Því miður verðum við að gera ráð fyrir því að atvinnuleysið aukist frá því sem nú er, alla vega í nokkra mánuði. Þróunin er þó mikið undir okkur sjálfum komin.

Mörg fyrirtæki og stofnanir hafa brugðist við minnkandi tekjum eða lægri fjárframlögum með því að draga úr vinnuframlagi eða lækka laun einstakra starfsmanna til þess að sem flestir geti haldið starfi sínu. Það er til fyrirmyndar og eflaust hægt að gera meira af slíku.

Með því að styðja við sprotafyrirtæki og stuðla að nýsköpun er hægt að búa til fjölmörg störf á næstu vikum, mánuðum og árum og að mínu mati verður að leggja mjög mikla áherslu á þetta. Margt hefur verið gert í þessa veru á síðustu vikum og margir komið að því verki, en það þarf að efla þetta starf enn frekar og leggja sérstaka áherslu á nýsköpun sem aflar gjaldeyris.

Á síðustu árum urðu til mörg störf sem má segja að hafi byggst á sandi. Af þessum sökum er óhjákvæmilegt og eðlilegt að mörg störf hverfi úr þjóðfélaginu. Sum þeirra munu aldrei koma aftur en sum störf munu verða til aftur síðar. Sem dæmi má nefna að allt of margir unnu í byggingariðnaði miðað við það sem þjóðin þarf á að halda og eðlilegt getur talis. Það blasti við öllum sem horfðu yfirvegað á stöðu mála að það voru allt of margar íbúðir í byggingu og meginástæðan var óeðlilega hátt íbúðaverð (svokölluð verðbóla). Ætli það verði ekki þörf á að setja kraft í íbúðabyggingar eftir svona 3-5 ár, en þó ekki af sama krafti og var á árunum 2005 – 2007?

Verkefnin í íslensku þjóðfélagi eru ærin. Það veitti ekki af að fleiri taki þátt í sinna börnum, unglingum, sjúkum og þeim öðrum sem þurfa á aðstoð eða þjónustu að halda. Á næstu mánuðum er t.d. mjög mikilvægt að sinna unglinunum sem best þannig að þeir rati inn á farsælar brautir, en reynslan sýnir til dæmis að í erfiðu árferði er meiri hætta á að unglingar leiðist út í eiturlyfjaneyslu. Það verður því að leita allra leiða til þess að sem flestar vinnufúsar hendur fái tækifæri til að vinna störf sem eru mikilvæg fyrir þjóðina. Við verðum að efla velferðarkerfið og fjölga störfum í því. Það þarf hins vegar að skera niður í útgjöldum ríkis og sveitarfélaga sem ekki snerta kjarna velferðarkerfisins.

Ef allir leggja sig fram þá er hægt að koma í veg fyrir að atvinnuleysið aukist mikið og hægt er að skapa fjölmörg störf á næstu mánuðum. Stjórnvöld geta gert margt til að hafa jákvæð áhrif á þróun atvinnumála og má benda áhugasömum á nýja atvinnustefnu Samtaka atvinnulífsins. Núna er mikilvægasta og brýnasta ákvörðunin sú að lækka stýrivexti umtalsvert. Fyrirtæki og einstaklingar eru að kikna undan háum vöxtum og það eru engin skynsamleg rök fyrir því að halda vöxtunum eins háum og þeir eru. Það er hins vegar auðvelt að færa rök fyrir því að háir stýrivextir síðustu ára séu ein af meginástæðum þess hve ástandið er erfitt núna.
mbl.is Spáir óbreyttum stýrivöxtum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband