3.2.2009 | 14:50
Fyrstu mistök ríkisstjórnarinnar
Eins og ég óttaðist var stutt í fyrstu mistök ríkisstjórnarinnar. Það skal tekið fram að ég er mjög ánægður með að þessi ríkisstjórn var mynduð og styð hana heils hugar. Hins vegar á eftir að koma í ljós hvernig hún mun standa sig. Reyndar er ein af ástæðunum fyrir því að ég er svo ánægður með að þessi stjórn var mynduð, að almenningur fær tækifæri til að sjá hvernig vinstri grænir fara með þau völd sem þeir hafa fengið.
Ríkisstjórnin hefur samþykkti tillögu Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegsráðherra, um að mögulegum hvalveiðiréttarhöfum verði send formleg viðvörun um að ákvörðun fyrri ríkisstjórnar, þ.e. Einars K. Guðfinnssonar, um hvalveiðikvóta hafi verið tekin til endurskoðunar. Steingrímur sagði á blaðamannafundi í dag, að með þessu væri tryggt að ekki mynduðust væntingar til hluta, sem kynnu að taka breytingum, en það er fjarri sanni. Þeir sem hafa hlustað á útvarpið síðustu daga vita að það hafa nú þegar myndast miklar væntingar. Margir telja hvalveiðarnar afar mikilvægar fyrir atvinnulífið í nokkrum sveitarfélögum og mikilvægið er mun meira en fjöldi starfa sem skapast segir til um. Á þeim tímum sem atvinnulausum fjölgar hratt geta nokkur störf breytt miklu um líðan íbúanna.
Nú er ekki ljóst hvort ákvörðunin um hvalveiðikvóta verður dregin til baka eða ekki. Steingrímur hefur aðeins náð að valda óöryggi og óánægju enn sem komið er. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með næstu skrefum vegna þess að þau munu segja töluvert mikið um vinnubrögð, viðhorf og stefnu Steingríms og stjórnarinnar.
Fyrsta atriðið er hve langur tími líður þar til endanlega ákvörðun er tekin. Síðasta ríkisstjórn var gagnrýnd fyrir seinar ákvarðanir og að þjóðin lifði í meiri óvissu en nauðsynlegt væri. Óvissan um hvalveiðar er ekki utanaðkomandi heldur heimagerð og því hlýtur að vera eðlilegt að gera þá kröfu að henni verði eytt mjög fljótt.
Ef Steingrímur ákveður að ákvörðun Einars skuli standa þarf hann ekki að rökstyðja það. Ef hann ákveður að draga ákvörðun Einars til baka þarf hins vegar að færa góð rök fyrir því. Þau rök munu væntanlega einnig vera fordæmisgefandi og upplýsandi um margt. Ég veit ekki betur en að þessar hvalveiðar séu gott dæmi um sjálfbæra nýtingu lífríkis sjávar og hefði haldið að stjórnmálaflokkur sem kennir sig við grænt sé hrifinn af slíku. Varla eru rök Steingríms gegn hvalveiðum þau að Evrópusambandið sé andvígt hvalveiðum!
Ákvörðun um hvalveiðar í endurskoðun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.1.2009 | 17:46
Veiðum hvali
Ákvörðun fráfarandi sjávarútvegsráðherra um að leyfa hvalveiðar er mjög umdeild eins og vænta mátti. Gagnrýnin varðar bæði það hvenær og hvernig ákvörðunin var tekin, sem og innihald hennar.
Ég tek heils hugar undir það sjónarmið að ráðherra í starfsstjórn eigi alls ekki að taka ákvörðun sem þessa rétt áður en hann lætur af störfum. Það getur hvorki talist æskilegt né eðlilegt.
En er æskilegt að Íslendingar veiði hvali í þeim mæli sem ákvörðun var tekin um? Væri gott eða slæmt að sú ríkisstjórn sem er að taka við dragi ákvörðun sjávarútvegsráðherra til baka? Það er ekki til eitt rétt svar við þessum spurningum og um þær hljóta að verða skiptar skoðanir. Sjálfur tel ég það vera mikil mistök ef ríkisstjórnin dregur þessa ákvörðun til baka.
Rökin sem mæla með hvalveiðum eru flest skýr og mörg þeirra studd staðreyndum og tölum. Sea Shepherd samtökin fullyrða að þeir [þ.e. Íslendingar] vilji slátra 150 langreyðum í útrýmingarhættu, en þetta er einfaldlega rangt því hvalveiðar Íslendingar eru sjálfbærar. Þessar veiðar myndu skapa fjölmörg störf á næstu mánuðum og það er ákaflega mikilvægt eins og staðan er í þjóðfélaginu. Samkæmt viðtali við Gunnar Bergmann Jónsson 27. janúar síðastliðinn þá má búast við því að strax á næstu dögum skapi ákvörðunin vinnu á Akranesi. Hvalveiðarnar munu mjög líklega afla þjóðinni gjaldeyris enda þótt það sé mjög erfitt að áætla hve mikið það yrði.
Rök gegn hvalveiðum eru fjölbreytt en mér sýnist þessi heyrast oftast:
- Hvalveiðar hafa vond áhrif á ímynd þjóðarinnar.
- Hvalveiðar skemma fyrir hvalaskoðunarfyrirtækjum.
- Hvalir eru gáfuð og falleg spendýr.
Undanfarin ár hef ég lagt mig fram um að fylgjast með umræðunni um hvalveiðar með áherslu á hvernig menn nota tölur til að færa rök með eða á móti hvalveiðum. Sem sérfræðingur í tölfræði og greiningu viðfangsefna leyfi ég mér að fullyrða að það er ekki mögulegt að færa sterk rök fyrir neinni af þessum þremur fullyrðingum. Það er hægt að draga fram ótal vísbendingar sem styðja eða stríða gegn öllum þessum fullyrðingum. Það verður því hver og einn að ákveða hverju hann vill trúa í þeim efnum.
Viðbrögð við ákvörðun ráðherra sýna vel hvað margir hafa sterkar tilfinningar til hvalveiða og hvað rök gegn hvalveiðum eru oft ótrúverðug. Sem dæmi þá segir Árni Finnsson, formaður Náttúrverndarsamtaka Íslands að þessi ákvörðun sjávarútvegsráðherra muni spilla fyrir samstarfi Íslands við önnur ríki og viðskiptum á lykilmörkuðum þar sem Íslendingar þurfi sem mest á góðum aðgangi og velvild að halda. Það er athyglisvert að skoða lög og stefnu Náttúrverndarsamtaka Íslands þar sem segir m.a. nýting og verndum lífríkis sjávar verður ávallt að grundvallast á vísindalegri þekkingu á útbreiðslu, magni og veiðiþoli viðkomandi stofns. Ákvörðun um hvalveiðar nú virðast þannig vera í góðu samræmi við stefnu samtakanna og kannski var Árni ekki að tjá sig sem formaður samtakanna. Ummæl Árna benda til þess að hann telji sig vera sérfræðing í alþjóðaviðskiptum og hann var kannski að tjá sig sem slíkur.
Ef sú ríkisstjórn sem er að taka við völdum ætlar að banna hvalveiðar og auka þar með á atvinnuleysið, þá geng ég út frá því að sú ákvörðun verði studd trúverðugum rökum.
28.1.2009 | 10:31
Skuldasúpa heimilanna
Óbærilegar skuldir margra heimila er einn af alvarlegustu þáttum kreppunnar. Nú mætti vísa í máltækið að hver sé sinnar gæfu smiður og segja að flestir þeir sem skuldi of mikið geti kennt sjálfum sér um. Við eðlilegar aðstæður myndi ég taka undir það. En nú eru mjög óeðlilegar aðstæður og forsendur sem var eðlilegt fyrir einstaklinga að gefa sér stóðust engan veginn. Skoðum fyrst hvernig þetta gerðist og síðan hvað þarf að gera.
Ég tel meginástæður þess að fjölmargar fjölskyldur gengu allt of langt út í skuldafenið á síðustu árum vera þessar.
- Þjóðinni fannst hún vera mikli ríkari en hún var og voru tvær meginástæður fyrir því. Annars vegar var gengi krónunnar mjög hátt og þess vegna voru innfluttar vörur ódýrar og hagstætt að fara í frí eða verslunarferðir til útlanda. Allir hagfræðingar vissu að gengi krónunnar væri of hátt (gengisvísitalan of lág) en menn deildu um það hvort gengi krónunnar væri 10, 20 eða 30% of hátt. Hins vegar var verðbóla á fasteignamarkaði og fæstir áttuðu sig á því að fasteignaverð myndi lækka mikið.
- Ástæður hás gengis krónunnar voru í upphafi framkvæmdir á Austurlandi vegna álvers og virkjunar. Á síðustu tveimur til þremur árum var hins vegar meginástæða hás gengis krónunnar sú að vextir á Íslandi voru háir. Seðlabankinn hélt vísvitandi uppi allt of háu gengi krónunnar.
- Háir vextir á Íslandi ýttu á fólk að taka erlend lán á mun lægri vöxtum. Seðlabankinn fullvissaði þjóðina ítrekað um að hann myndi ekki láta gengi krónunnar lækka mikið vegna þess að þá færi verðbólgan af stað og það gæti Seðlabankinn ekki liðið. Þeir sem báru traust til seðlabankans treystu því að gengi krónunnar myndi ekki falla mikið. Ýmsir bentu þó á að þetta gæti ekki gengið til lengdar og sumir orðuð það þannig að Seðlabankinn væri að mála sig út í horn.
- Allt of margir Íslendingar keyptu fasteign á allt of háu verði á síðustu árum. Það hefur verið ljóst í mörg ár að fasteignaverð myndi falla, eins og ég benti á í greininni Fasteignaverð mun falla í Morgunblaðinu í júlí 2005. (Ef mér hefur tekist að tengja línurit við bloggið þá sýnir það að þetta var augljóst á þessum tíma.) Örfáir einstaklingar tóku undir þessi varnaðarorð mín en mér finnst að fjölmiðlar, greiningardeildir bankanna og fleiri hafi brugðist þjóðinni með því að telja henni trú um að þetta háa fasteignaverð gæti haldist til framtíðar.
- Með falli krónunnar og verðbólgunni sem hefur fylgt fallinu hafa skuldir einstaklinga hækkað stórkostlega og miklu meira en þá gat órað fyrir.
En hvernig á að bregðast við þessu? Því miður er ekki til nein góð lausn og margir munu missa húsnæðið og margir munu verða gjaldþrota. En stjórnvöld og fjármálastofnanir verða að lágmarka skaðann og gera allt sem hægt er og eðlilegt getur talist til að sem fæstir verði gjaldþrota og að sem fæstir missi húsnæði sitt. Aðalatriðin sýnist mér vera þessi:
- Það verður að lækka vexti strax. Fátt er jafn mikill skaðvaldur og háir vextir um þessar mundir. Þau rök að það þurfi að hafa stýrivexti háa til að halda upp gengi krónunnar eru jafn vitlaus núna og þau voru síðustu misserin fyrir bankahrunið.
- Það verður að koma til móts við skuldara með frestun afborgana, skuldbreytingum og á fleiri vegu. Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði og veit ekki hvernig best er að útfæra þetta, en ég veit að þetta er snúið mál og álitamálin mörg. Nú reynir á nýja ríkisstjórn að sýna hvað hún getur.
- Það þarf að vinna að því að gengi krónunnar lagist. Verkfærin til þess eru samt ekki háir stýrivextir og gjaldeyrishöft. Þvert á móti þarf að greiða fyrir gjaldeyrisviðskiptum.
Ég hef reifað nokkur mikilvæg atriði varðandi skuldasúpu heimilanna en auðvitað eru þau miklu fleiri. Ljóst er að hvernig okkur tekst að halda í og skapa störf á næstunni hefur mikil áhrif á það hvernig fólki gengur að greiða skuldir sínar. Einnig þarf að gera margt fyrir þá sem þurfa hjálp á næstunni hvort sem það er vegna skulda eða af öðrum ástæðum.
26.1.2009 | 12:06
Störf og atvinnuleysi
Fátt er mikilvægara fyrir íslensku þjóðina á næstu mánuðum en að atvinnuleysi verði eins lítið og hugsast getur. Því miður verðum við að gera ráð fyrir því að atvinnuleysið aukist frá því sem nú er, alla vega í nokkra mánuði. Þróunin er þó mikið undir okkur sjálfum komin.
Mörg fyrirtæki og stofnanir hafa brugðist við minnkandi tekjum eða lægri fjárframlögum með því að draga úr vinnuframlagi eða lækka laun einstakra starfsmanna til þess að sem flestir geti haldið starfi sínu. Það er til fyrirmyndar og eflaust hægt að gera meira af slíku.
Með því að styðja við sprotafyrirtæki og stuðla að nýsköpun er hægt að búa til fjölmörg störf á næstu vikum, mánuðum og árum og að mínu mati verður að leggja mjög mikla áherslu á þetta. Margt hefur verið gert í þessa veru á síðustu vikum og margir komið að því verki, en það þarf að efla þetta starf enn frekar og leggja sérstaka áherslu á nýsköpun sem aflar gjaldeyris.
Á síðustu árum urðu til mörg störf sem má segja að hafi byggst á sandi. Af þessum sökum er óhjákvæmilegt og eðlilegt að mörg störf hverfi úr þjóðfélaginu. Sum þeirra munu aldrei koma aftur en sum störf munu verða til aftur síðar. Sem dæmi má nefna að allt of margir unnu í byggingariðnaði miðað við það sem þjóðin þarf á að halda og eðlilegt getur talis. Það blasti við öllum sem horfðu yfirvegað á stöðu mála að það voru allt of margar íbúðir í byggingu og meginástæðan var óeðlilega hátt íbúðaverð (svokölluð verðbóla). Ætli það verði ekki þörf á að setja kraft í íbúðabyggingar eftir svona 3-5 ár, en þó ekki af sama krafti og var á árunum 2005 2007?
Verkefnin í íslensku þjóðfélagi eru ærin. Það veitti ekki af að fleiri taki þátt í sinna börnum, unglingum, sjúkum og þeim öðrum sem þurfa á aðstoð eða þjónustu að halda. Á næstu mánuðum er t.d. mjög mikilvægt að sinna unglinunum sem best þannig að þeir rati inn á farsælar brautir, en reynslan sýnir til dæmis að í erfiðu árferði er meiri hætta á að unglingar leiðist út í eiturlyfjaneyslu. Það verður því að leita allra leiða til þess að sem flestar vinnufúsar hendur fái tækifæri til að vinna störf sem eru mikilvæg fyrir þjóðina. Við verðum að efla velferðarkerfið og fjölga störfum í því. Það þarf hins vegar að skera niður í útgjöldum ríkis og sveitarfélaga sem ekki snerta kjarna velferðarkerfisins.
Ef allir leggja sig fram þá er hægt að koma í veg fyrir að atvinnuleysið aukist mikið og hægt er að skapa fjölmörg störf á næstu mánuðum. Stjórnvöld geta gert margt til að hafa jákvæð áhrif á þróun atvinnumála og má benda áhugasömum á nýja atvinnustefnu Samtaka atvinnulífsins. Núna er mikilvægasta og brýnasta ákvörðunin sú að lækka stýrivexti umtalsvert. Fyrirtæki og einstaklingar eru að kikna undan háum vöxtum og það eru engin skynsamleg rök fyrir því að halda vöxtunum eins háum og þeir eru. Það er hins vegar auðvelt að færa rök fyrir því að háir stýrivextir síðustu ára séu ein af meginástæðum þess hve ástandið er erfitt núna.Spáir óbreyttum stýrivöxtum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.1.2009 | 21:10
Út úr kreppunni
Eins og flestir Íslendingar er ég gáttaður á atburðarrás síðustu mánaða. Hvernig gat það gerst að íslenska þjóðin yrði allt að því gjaldrota á örskömmum tíma? Ég hef svo sem mínar skoðanir á því en ætla ekki að blogga mikið um þær.
Ég hef nú ákveðið að byrja að blokka að til þess að koma ýmsu á framfæri varðandi það hvað þjóðin getur gert til að vinna sig út úr kreppunni. Máltækið hver sé sinnar gæfu smiður á við um íslensku þjóðina ekki síður en einstaklinga. Í bloggi mínu ætla ég að draga fram það sem ég tel vera mikilvægustu markmiðin til að stefna að og mikilvægar aðgerðir og ákvarðanir sem þarf að taka.
Ég tel að líta megi á þrjú markmið sem meginmarkmið á næstu mánuðum og árum og mun hafa þau sem útgangspunkt í pælingum mínum:
- Að atvinnuleysi verði sem minnst. Það þarf gera margt til þess að sem fæst störf tapist og það hefur einmitt verið gert á mörgum vinnustöðum að undanförnu. Það þarf einnig að skapa sem flest ný störf og áherslan á frumkvöðla og nýsköpun er liður í að ná því markmiði. En betur má ef duga skal.
- Gjaldeyrisöflun. Við sitjum uppi með himinháar erlendar skuldir og þess vegna verðum við að leggja okkur fram um að afla mikils gjaldeyris og nota sem minnstan gjaldeyri. Lágt gengi íslensku krónunnar hefur valdið því að við höfum stigið mörg skref í þessa átt og nú er gjaldeyrisjöfnuður jákvæður svo um munar. En betur má ef duga skal.
- Að þjóðinni líði sem best. Í þessu felst margt. Þetta tengist til dæmis fyrsta markmiðinu sterkt vegna þess að eitt af því sem veldur þjóðinni hvað mestri vanlíðan er mikið atvinnuleysi. Dæmi um það sem ég myndi kalla undirmarkmið tengt þessu eru markmið um að sem fæstir einstaklingar verði gjaldþrota og að sem fæstir missi eigið húsnæði.
Í næstu pistlum mínum mun ég skoða ýmsa fleti á þessu flókna máli. Ég mun til dæmis ræða mikilvægi þess að helstu ráðamenn þjóðarinnar axli ábyrgð á þann hátt að víkja fyrir nýju fólki. Það verða aldrei allir sammála um það nákvæmlega hverjir eigi að víkja, en meðan enginn axlar ábyrð mun vanlíðan þjóðarinnar aukast jafnt og þétt og mótmæli fara í vöxt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)